top of page

Ráðstefna

Herferð unnin fyrir ímyndaða ráðstefnu með áherslu á jafnréttismál, innifelur kennimerki ráðstefnuhaldara, auglýsingar, dreifibréf, dagskrá, app, aukahluti ofl.

Hugmyndin

Þegar ég var að velta fyrir mér viðfangsefni fyrir þetta verkefni, þ.e. herferð fyrir ímyndaða ráðstefnu með áherslu á jafnréttismál, lá beinast við að taka fyrir réttindabaráttu hinsegin fólks, enda stendur málstaðurinn mér nærri, auk þess sem mikið hefur verið fjallað um bakslagið í réttindabaráttu hinsegin fólks síðustu misseri.
 

Já, hinsegin fólk hefur mátt þola aukið aðkast, einelti og ofsóknir á Íslandi síðustu ár, eins og sést m.a. af umfjöllun fjölmiðla.

Með hliðsjón af þeirri umræðu varð til nafn á bæði ráðstefnuna og eins þau ímynduðu samtök sem, samkvæmt verklýsingu, eiga að halda hana.

Fyrst varð til nafn á ráðstefnuna, Bakslagið burt – ráðstefna um hinsegin réttindi. Að svo kom nafn samtakanna, Framför, bandalag hinsegin fólks. 

Orðið framför er náttúrulega ákveðin andstæða við orðið bakslag og hvað er einfaldara en að segja að við viljum bakslagið burt. Skilaboðin gætu ekki verið skýrari.

Lógó og brandbók 

Gjallarhorn varð fyrir valinu þegar lógó var gert fyrir samtökin í forritinu Illustrator, enda er það af ýmsum ástæðum prýðilegt tákn.

 

Í sögulegu samhengi er gjallarhornið eitt elsta tækið sem er nýtt til að ná athygli almennings. Það er gjarnan notað í mótmælum og kröfugöngum af hópum sem vilja vekja athygli á tilteknum málstað og ná fram umbótum í samfélaginu. Það vekur hugrenningartengsl við undirokaða hópa í samfélaginu um leið og það er táknrænt fyrir samstöðu fólks, réttsýni og baráttuþrek.

 

Og úr gjallarhorninu í umræddu lógói berast hljóðbylgjur, svo kröftugar að þær líkjast eldingum.


M.ö.o. kristallar lógóið samtakamátt bandalag hinsegin fólks, sem ætlar sér að breyta hlutunum til hins betra og er óhrætt við að bjóða fordómaseggjum og ofbeldisfólki byrginn.

Afgerandi litir, bleikur og blár voru valdir til notkunar í lógóinu, litir sem þar að auki skírskota í alþjóðlega fánaliti trans fólks og þar með menningu hinsegin fólks

Hvað varðar letur í lógóinu þá er Framför skrifað með Eras Bold ITC og Bandalag hinsegin fólks með Britannic Bold.

 

Útbúin var brandbók með nokkrum útgáfum af lógóinu, þ.e. sköluðu lógói í nokkrum stærðum, lógói í CMYK, RGB og Pantone, negatífu, röstuðu og í einum lit og upptalið hvað má og hvað má ekki gera við lógóið.

RVE_dagskra_ 2.jpg

Litir, letur og ljósmyndir

Áberandi litir eru notaðar út í gegn til að grípa athyglina og frekar færri heldur en fleiri. Þeir eru í ætt við litina í lógóinu en þó ekki eins og styðja þannig við þá.

Ljósmyndir og teikningar eru endurtekið notaðar og undirstrika skilaboðin sem verið er að koma á framfæri. Ljósmynd af hnefa á lofti er sem dæmi táknræn fyrir manneskju sem rís upp gegn óréttlæti og krefst úrbóta.

Myndin er síðan römmuð inn í þríhyrning á bleikum bakgrunni sem hefur sterka skírskotun í sögu hinsegin fólks, þar sem hommar voru látnir klæðast búningum með bleikum þríhyrning í útrýmingarbúðum nasista.

Bleikur er því mjög táknrænn fyrir hinsegin samfélagið í sögulegu samhengi og fær því gott vægi í gripunum sem eru hannaðir fyrir ráðstefnuna.

Eftir að gerðar voru leturprufur var ákveðið að nota letrið Verdana í meginmáli í öllum gripum, enda skýrt og þægilegt aflestrar. 

Anton er hins vegar notað í fyrirsagnir þar sem letrið er fyrirferðarmeira og fangar athyglina.

Á einum stað var reyndar vikið  frá þessu, en það var í dagblaðaauglýsingunni þar sem viðbótarupplýsingum um bandalagið Framför er komið fyrir neðst í snyrtilegu Helvetica Neue letri.

Bakslagið burt er skrifað með Century Gothic, sett í hvítan og rammað inn með svörtu sem gefur því sem „pow-effect“. Ráðstefna um hinsegin réttindi er skrifað með Anton regular. 

Gripir

Þegar lógóið, letur og litir lágu fyrir var ráðist í gerð gripa fyrir ráðstefnuna, en þeir voru útbúnir í InDesign.

 

Ég ákvað að hanna herferð með einföldu, skýru og sterku myndmáli og skilaboðum. 

 

Ljósmynd af öskrandi dreng varð einskonar leiðarstef í allri herferðinni og sömuleiðis heiti ráðstefnunnar Bakslagið burt.

RVE_umbudir.jpg
RVE_mappa.jpg

Við fáum svo mikið af skilaboðum á hverjum degi og því þurftu skilaboðin að vera einföld og skýr til að ná í gegn.

 

Heiti ráðstefnunnar Bakslagið burt eru beinskeytt lykilskilaboð sem er hamrað á aftur og aftur og aftur á öllum gripum.

Hugmyndin er sú að blása fólki byr í brjóst með skýrum og auðmeltanlegum skilaboðum.

Þarna er bandalagið Framför að tala inn í sína lykilhópa, sem það þarf að ná til, en það er líka að tala til þeirra sem standa fyrir utan það mengi.

Flestir gripir eru merktir í bak og fyrir með lógói Framfarar og heiti ráðstefnunnar.
 

Nema reyndar bolurinn, sem er einn fjögurra aukahluta sem voru framleiddir í Framtíðarstofu Tækniskólans. Á honum er bara mynd af drengnum í litríkari útfærslu.

 

Hugmyndin er sú að ráðstefnugestir fái bol. 
Þá verður búið að koma skilaboðunum rækilega á framfæri með auglýsingum, dreifibréfi og svo framvegis.
Myndin vekur því strax upp hugrenningartengsl við ráðstefnuna. 
 

Auk þess eru meiri en minni líkur á því að fólk vilji klæðast bolnum áfram og losi sig ekki við hann ef bolurinn er ekki merktur einhverri ráðstefnu tiltekið ár. Þetta er því líka gert með umhverfið í huga. Að vísu verður límmiða með lógói framfarar komið fyrir á bolnum, en hann má hæglega fjarlægja.

branding-stickers-mockup-featuring-a-colorful-background-m31370 (1).png

Bolurinn, mappan, umbúðirnar og gripir sem voru framleiddir í Framtíðarstofu (límmiðar, taupoki, bókamerki) sýna síðan ýmis tilbrigði við sama stef í þessu verkefni, þar sem áfram er unnið með liti og myndmál.
 

Annars eru staðsetning ráðstefnunnar og stund, Harpa dagana 1.-2. maí ávallt upptalin, sem og styrktaraðilar, Reykjavíkurborg og Félags- og vinnumarkaðs ráðuneytið, sem þarfnast ekki frekari útskýringar en að hér séu á ferð stoltir styrktaraðilar.
 

Ef um væri að ræða félag eða samtök sem færri hefðu heyrt getið þá hefði nánari útskýring verið látin fylgja með. Við vitum hins vegar fyrir hvað borgin og ráðuneytið standa og að þau styðja við jafnréttismál, enda eru þau dugleg við að koma því á framfæri. Þar af leiðandi þóttu  útskýringar óþarfar.

Heildarmynd

Í raun má því segja um gripina að unnið hafi verið að því eftir fremsta megni að samræma útlit þeirra, allt frá blaðaauglýsingum til matseðils til apps (sem var unnið í Adobe XD) svo að viðtakendur upplifi herferðina sem eina, sterka heild.
 

Allt er þetta gert með það fyrir augum að koma skilaboðunum áleiðis með einföldum, skýrum og áhrifaríkum hætti.
 

Í aðdraganda ráðstefnunnar ættu því flestir að vera búnir að átta sig á um hvað málið snýst og hvers konar ráðstefna er á ferðinni.
 

Og svo væri bara vonandi að hún hefði tilætluð áhrif, sem er að kveða niður bakslagið í réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi.

RVE_dagskra_ 2.jpg

Efst

bottom of page